*

miðvikudagur, 8. júlí 2020
Innlent 7. apríl 2019 15:04

Seldu orku fyrir 6 milljarða

Hagnaður Orkusölunnar dróst saman um 100 milljónir króna á síðast ári en nam um einum milljarði.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Orkusölunnar dróst saman á síðasta ári um 11%, úr rétt rúmlega 1,1 milljarði króna í tæplega milljarð króna. Á sama tíma jukust rekstrartekjur félagsins úr tæplega 5,9 milljörðum króna í rúmlega 6,1 milljarð, eða um 4,7%. Rekstrargjöldin jukust um 9,8%, úr 4,4 milljörðum í tæplega 4,9 milljarða.

Rekstrarniðurstaða félagsins án fjármunatekna og fjármagnsgjalda dróst saman úr ríflega 1,4 milljörðum í tæplega 1,3 milljarða, eða um 11%. Á árinu drógust skuldir félagsins saman um 5,6%, úr rúmlega 3,9 milljörðum í rúmlega 3,7 milljarða, meðan eigið fé félagsins jókst um 7,9%, úr tæplega 9,4 milljörðum í rúmlega 10,1 milljarð.

Þannig jukust eignir félagsins um 3,9%, úr 13,3 milljörðum króna í 13,8 milljarða. Magnús Kristjánsson er framkvæmdastjóri félagsins sem er í eigu Rarik ohf.