Pylsuvagninn ehf., rekstrarfélag Pylsuvagnsins á Selfossi, skilaði rúmlega 17 milljóna króna hagnaði á árinu 2021, samanborið við tæplega 14 milljóna króna hagnað árið áður.

Pylsuvagninn greiddi út 14 milljónir króna í arð á síðasta ári, en ekki kemur fram í nýjum ársreikningi hvort greiddur verði út arður í ár. Óráðstafað eigið fé félagsins var í árslok rúmlega 17 milljónir króna.

Pylsuvagninn á Selfossi stendur á Tryggvatorgi við Ölfusárbrú og hefur verið rekinn þar síðan árið 1984, þá var vagninn þriggja fermetra kofi. Árið 1995 var núverandi húsnæði tekið í notkun, sem síðar var byggt við árið 2009. Ingunn Guðmundsdóttir er stofnandi og jafnframt eini eigandi félagins.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.