Heilsan #1 ehf. – rekstrarfélag verslunarinnar Svefns og Heilsu – hagnaðist um 143 milljónir í fyrra, sem er ríflega tvöföldun frá fyrra ári. Tekjur námu 992 milljónum og jukust um 17% milli ára.

Kostnaðarverð seldra vara nam 484 milljónum og jókst um 15%, en launakostnaður nam 155 milljónum og dróst lítillega saman. Annar rekstrarkostnaður nam 137 milljónum og jókst um 16%, og afskriftir námu 23 milljónum og lækkuðu um 21%.

Fjármagnsliðir voru neikvæðir um tæpar 15 milljónir í stað tæpra 30 árið á undan. Heildareignir námu 834 milljónum í lok síðasta árs og hækkuðu um 14% milli ára, eigið fé nam 426 milljónum og jókst um ríflega helming, og eiginfjárhlutfall nam því 51% og hækkaði um 13 prósentustig.

Á árinu voru eignfærðar fasteignir og lóðir fyrir 140 milljónir króna, og námu heildareignir í þeim flokki 608 milljónum í lok árs.