Franska móðurfélag Lagardère Travel Iceland, keypti 40% hlut íslenskra hluthafa í félaginu í júlí á síðasta ári og eignaðist íslenska félagið þar með að fullu. Lagardère rekur sjö veitingastaði auk sælkeraverslunar í Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli.

Íslensku hluthafarnir áttu hlutina í gegnum félagið NQ ehf. og var söluverðið um þrjár miljónir evra samkvæmt ársreikningi franska móðurfélagsins, sem samsvarar um 440 milljónum króna miðað við núverandi gengi.

Sigurður Skagfjörð Sigurðsson, framkvæmdastjóri Lagardère Travel Iceland, átti þriðjungshlut í NQ. Hann segir hluthafa NQ hafa ákveðið að nýta sölurétt sem þeir áttu á hlutunum.

Tímasetningin hafi hentað hluthöfunum ágætlega miðað við stöðuna í ferðaþjónustunni enda hefur Lagardère Travel Iceland orðið fyrir þungu höggi. Tekjur félagsins lækkuðu um 85% á milli áranna 2018 og 2020, úr 4,2 milljörðum króna niður í 644 milljónir króna. Félagið var rekið með 278 milljóna tapi á síðasta ári.

Þungur rekstur frá falli Wow air

Sigurður segir að róðurinn hafi tekið að þyngjast við fall Wow air í lok mars árið 2019. Við það dróst flugumferð töluvert saman um flugvöllinn og farþegum fækkaði eftir því. „Við vorum að skala félagið niður allt árið 2019. Fyrstu þrír mánuðirnir árið 2020 voru eins og við reiknuðum með en svo kemur COVID. Þá var öll ferðaþjónustan með of mikið af starfsfólki. Við byrjuðum að fækka fólki eins og við gátum. En við erum með svo marga staði sem þurfa að vera opnir því það er hátt þjónustustig á Keflavíkurflugvelli og við viljum gjarnan halda því,“ segir Sigurður. Félagið hafi þó þurft að loka sjö stöðum af átta í Leifsstöð.

Hann bendir á að félagið hafi verið með um 200 starfsmenn í vinnu þegar mest lét en stöðugildin hafi einungis verið 11 í maí síðastliðnum. Verið er að ráða nokkuð af starfsfólki þessa dagana og stefnt að því að opna veitingastaðina einn af öðrum á ný í sumar. Ef umferð um flugvöllinn tekur við sér eins og búist er við verði starfsmannafjöldinn kominn upp í 70 til 100 manns í september.

Buðu í rekstur á Þingvöllum

Lagardère hefur um nokkurra ára skeið haft áhuga á að auka við starfsemi sína á Íslandi utan við Keflavíkurflugvöll. Félagið tók meðal annars þátt í útboði Ríkiskaupa í vor um veitinga- og verslunarrekstur á Þingvöllum, án þess að hreppa góssið.

„Við höfum skoðað fleiri staði utan flugvallarins og Þingvalla undanfarin misseri. En það er svo mikil óvissa varðandi COVID og hvenær allt kemst í gang. Það eru ekki margir kostir sem þola mikla fjárfestingu,“ segir Sigurður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .