Helmingur þeirra fjögurra eigenda sem staðið hafa á bakvið súkkulaðigerðina Omnom hafa selt sig út úr félaginu vegna ágreinings um framtíðarstefnu fyrirtækisins. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Félagið var stofnað árið 2013 og hóf súkkulaðiframleiðslu í gömlu bensínstöð Skeljungs við Austurströnd á Seltjarnarnesi, en félagið flutti sig fyrr á árinu í stærra húsnæði á Hólmaslóð á Granda en um leið margfaldaðist framleiðslugeta þess.

Félagið skilaði á síðasta ári 6,6 milljóna hagnaði en árið 2014 nam hann 2 milljónum. Eigið fé félagsins nam 9,6 milljónum á síðasta ári en skuldir þess námu 73,3 milljónum.

Áttu 30% hlut en seldu til annarra eigenda

Munu þeir Karl Viggó Vigfússon bakari og konditormeistari og André Úlfur Visage, hönnuðurinn á bakvið umbúðir fyrirtækisins, selt sig út en Karl átti 20% hlut og André 10%.

Hinir tveir hluthafarnir keyptu þeirra hluti, en ekki er vitað hvernig skiptingin er. Þeir tveir hluthafar sem enn eiga í fyrirtækinu eru þá Kjartan Gíslason sem átti fyrir 20% hlut í félaginu og hins vegar ffélagið 7Ó ehf sem átti helming hlutafjár.

Það félag er að fullu í eigu Mörtu Nowosad, eiginkonu Óskars Þórðarsonar, framkvæmdastjóra og eins stofnanda félagsins.