Erlendir aðilar seldu íslensk ríkisskuldabréf að nafnvirði 8,6 milljarða í mars síðastliðnum. Þetta má lesa út úr markaðsupplýsingum Lánamála ríkisins sem birtar voru fyrir skömmu. Erlendir aðilar áttu í lok marsmánaðar ríkisskuldabréf að nafnvirði 77,1 milljarða og lækkaði staða þeirra um rúm 10% milli mánaða.

Erlendir aðilar eiga nú um 14% af heildarútgáfu ríkisbréfa en í lok febrúar var hlutfallið 15,5% og hefur því lækkað um 1,5 prósentustig á milli mánaða. Hefur hlutfallið lækkað um 3,5 prósentstig frá því í lok árs 2018 þegar það var 17,5%.

Skuldabréfaeign erlendra aðila hefur nær alfarið verið í óverðtryggðum bréfum en hún nam í lok mánaðarins 74,7 milljörðum og lækkaði um 8,4 milljarða milli mánaða. Mest varð breytingin á bréfum á gjalddaga 2025 og 2028. Staða erlendra aðila í bréfum á gjalddaga 2025 nam í lok mars um 12,8 milljörðum og lækkaði um 3,8 milljarða á milli mánaða auk þess sem staða þeirra í bréfum á gjalddaga 2028 nam tæplega 16 milljörðum og lækkaði um 2,9 milljarða milli mánaða. Hæst var hins vegar staðan í bréfum á gjalddaga 2031 en hún lækkaði um tæpan milljarð og stendur nú í rúmlega 30 milljörðum króna.