Íslenska ríkið þarf að leggja endurreistum Spkef til marga milljarða króna til að mæta skuldbindingum hans vegna innlána og uppfylla lágmarkseiginfjárhlutfall starfandi fjármálafyrirtækja. Kröfuhafar sparisjóðsins samþykktu á föstudag fullnaðaruppgjör vegna yfirtöku hins nýja Spkef sparisjóðs á innstæðum, eignum og öðrum rekstri hins fallna sparisjóðs Keflavíkur. Uppgjörið gerir ráð fyrir því kröfuhafarnir fái 300 milljónir króna greiddar gegn því að falla frá öðrum kröfum sínum á sjóðinn.

Eignir voru 98 milljarðar

Samkvæmt síðasta birta ársreikningi Sparisjóðs Keflavíkur námu eignir hans 98 milljörðum króna í árslok 2008. Innstæður, sem eru að fullu tryggðar af íslenska ríkinu, voru um 55 milljarðar króna. Ekkert annað er á skuldahlið hins nýja Spkef en innstæður sem hann tók yfir frá fyrirrennara sínum. Því ætti að vera um 43 milljarðar króna virði af eignum eftir þegar búið er að draga innstæður frá.

Þessar eignir „seldu“ kröfuhafar Spkef á 300 milljónir króna á föstudag. Í kjölfar uppgjörsins verður íslenska ríkið 100% eigandi af Spkef sparisjóði.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að kröfuhafar sjóðsins, sem eru að mestu þýskir bankar, hafi látið framkvæma verðmat á eignum hans. Það verðmat hafi sýnt fram á að eignirnar voru metnar langt yfir raunvirði og að nauðsynlegt væri að afskrifa stóran hluta þeirra. Í kjölfarið féllust þeir á fullnaðaruppgjörið.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .