Netverslunin Asos seldi hvorki meira né minna en einn svartan kjól á hverri sekúndu og einn brúðarkjól á hverri mínútu á Svarta föstudeginum (e. Black Friday) í lok nóvember mánaðar á síðasta ári, en umræddur tilboðsdagur var sá stærsti í sögu netverslunarinnar. BBC greinir frá.

Þessi sögulega sala varð til þess að sala Asos jókst um 20% á síðustu 4 mánuðum síðasta árs, samanborið við árið áður.

Nick Beighton, framkvæmdastjóri Asos, sagði að þessi niðurstaða væri hvetjandi, en benti jafnframt á að næg vinna væri framundan. Síðastliðið ár gekk þó ekki áfallalaust fyrir sig en í júlí gaf félagið út afkomuviðvörun eftir að hafa lent í birgðavandamálum bæði í Evrópu og Bandaríkjunum.