PricewaterhouseCoopers (PwC) seldi þjónustu fyrir 1,6 milljarða króna á reikningsárinu 2009 (frá 1. júlí til 30. júní 2009) samkvæmt ársreikningi sem skilað var inn til ríkisskattstjóra 30. nóvember síðastliðinn. Rekstrartekjurnar höfðu þá aukist úr 1,4 milljarði króna árið áður. Þegar reikningnum var skilað inn voru um 14 mánuðir liðnir frá því að stjórn PwC hafði undirritað hann.

Þorri rekstrarteknanna, rúmlega 1,4 milljarðar króna, fór í að greiða laun 127 starfsmanna fyrirtækisins og annan kostnað þess.

Alls nam rekstrarhagnaður PwC um 160,7 milljónum króna á rekstrarárinu 2009 og jókst um tæplega 70 milljónir króna frá árinu áður. Eftir að fyrirtækið hafði greitt skatta og gjöld stóðu eftir um 124 milljónir króna. Alls námu eignir PwC 658 milljónum króna í lok reikningsársins 2009 og höfðu þær aukist um 545 milljónir króna á milli ára.

Fyrirtækið skuldaði 421 milljón króna og stærstu skuldaliðirnir voru skammtímaskuldir upp á 201 milljón króna. Þá námu lán frá hluthöfum um 47,2 milljónum króna. Tilgreina ekki tillögu um arð Tillaga um arðgreiðslur vegna rekstrarársins er ekki tilgreind í ársreikningi og sagt að stjórn PwC „mun á aðalfundi koma með tillögu um arðgreiðslur“. Í reikningnum kemur þó fram að fyrirtækið hafi greitt út 81,4 milljónir króna til 21 hluthafa á árinu vegna frammistöðu þess á rekstrarárinu 2008. Árið áður fengu þeir 96 milljónir króna greiddar í arð.

PwC var aðalendurskoðandi Glitnis og Landsbankans fyrir hrun. Fyrirtækinu hefur meðal annars verið stefnt fyrir dómstólum í New York af slitastjórn Glitnis fyrir að hafa aðstoðað klíku undir stjórn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar að ræna bankann innanfrá í aðdraganda bankahrunsins. Þá tilkynnti slitastjórn Landsbankans í desember síðastliðnum að það væri hennar mat að ársreikningar bankans fyrir árið 2007 og árshlutareikningur hans árið 2008 hefðu ekki gefið rétta mynd af stöðu bankans. Hún telur að PwC beri skaðabótaskylda ábyrgð á þessu sem ytri endurskoðandi Landsbankans á þessum tíma og hefur sent fyrirtækinu bréf þess efnis. PwC hefur alfarið hafnað öllum þessum ásökunum.

PwC hefur þó fengið ýmislegt að gera hjá bönkunum eftir hrun. Fyrirtækiðgerði meðal annars, ásamt KPMG, verðmat á virði þeirra skuldabréfa sem keypt voru upp úr peningamarkaðssjóðum bankanna eftir fall þeirra í október 2009. Verðmatið reyndist síðar fjarri raunvirði bréfanna enda fóru flest fyrirtækin sem gáfu út bréfin á hausinn og skiluðu litlum eða engum endurheimtum fyrir ótryggða kröfuhafa á borð við skuldabréfaeigendur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.