„Hugmynd okkar Lýðs Vignissonar, samstarfsmanns míns, er að koma með til Íslands ýmsar nýjungar í gerð vængjasósa eins og þær sem margir Íslendingar þekkja úr ferðum sínum til Bandaríkjanna. Ég er búinn að búa hérna á Íslandi í 15 ár og alltaf saknað þessara vængja. Því ákvað ég að byrja að gera mínar eigin sósur fyrir sjö árum síðan.

Síðustu þrjú árin höfum við Lýður verið að undirbúa Vængjavagninn, en síðan bauð Róbert Aron Magnússon í Reykjavík Street Food okkur hingað inn í Götumarkaðinn og erum við búnir að vera hér síðustu vikurnar,“ segir Justin Shouse sem rekur kjúklingavængjastaðinn Just Wingin’ it á Klapparstíg.

„Um síðustu helgi náðum við svo þeim árangri að selja 10 þúsund vængi í fyrsta sinn hérna á staðnum, sem er svipað og á góðri helgi í vagninum í sumar. Núna um helgina, frá fimmtudegi til sunnudags, verðum við svo með sértakt þakkargjörðartilboð, 24 vængi með þremur mismunandi bragðtegundum, tvær hefðbundnar bandarískar „hash browns“, sem eru hakkaðar steiktar kartöflur með miklum losti, hrásalat í Suðurríkjastíl og sætan maís, á 5.500 krónur.“

Venjulega selja þeir hjá Just Wingin’ it einungis kjúklingavængi, auk blómkálsvalkosts fyrir þá sem vilja, og þá í sex vængja skammtastærðum, þó að stórt fjölskyldutilboð sé svo með 50 vængjum.

„Ég er frá bænum Erie í Pennsylvaníu sem er í nágrenni Buffalo borgar í New York ríki, sem sósan fræga er kennd við, en á mínu heimasvæði er mikil fjölbreytni í kjúklingavængjum sem við erum stolt af. Gárungarnir segja að í mínum bæ sé annaðhvort kirkja eða bar á hverju götuhorni, og hver bar er með 10 upp í 25 mismunandi bragðtegundir af kjúklingavængjum, einn er jafnvel með 150 mismunandi tegundir,“ segir Justin.

„Við byrjuðum með Vængjavagninn í apríl, við Ásgarð í Garðabæ, þar sem ég spilaði körfubolta fyrir Stjörnuna, og hefur félagið verið ómetanlegur stuðningur í öllu ferlinu. Það er fram úr hófi lúxus að vera því kominn hingað inn í gamla Skelfiskmarkaðinn sem gerður var upp fyrir einhverjar fjögur hundruð milljónir króna. Þetta er einstaklega fallegt veitingarými og verður gaman þegar fleiri geta opnað hér þegar faraldrinum linnir.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Nýjustu vendingar í málefnum Íslandspósts teknar til skoðunar.
  • Samkeppnisumhverfi á flugmarkaði kann að breytast vegna vendinga hjá Norwegian.
  • Ferðaforföll vegna heimsfaraldursins hafa ítrekað ratað inn á borð vátryggingafélaganna.
  • Hagnaður tíu stærstu sjávarútvegsfyrirtkjanna er tekinn saman en hann hefur aukist um helming milli ára.
  • Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða, segir frá miklum uppgangi sjóðastýringar.
  • Ölverk í Hveragerði, sem er eina jarðgufuknúna brugghúsið á Íslandi, blæs til sóknar í heimsfaraldri
  • Fyrrum framkvæmdastjóri Borgar fasteignasölu, Þóra Birgisdóttir, sem gengið hefur til liðs við Eignamiðlun segir frá ferlinum.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um Brynjar Níelsson
  • Fjölmiðlarýnir skrifar um arðgreiðslur og upplýsingaóreiðu