Leikkonan Ólafía Hrönn Jónsdóttir hefur um árabil sinnt veislustjórn og verið með skemmtiatriði í alls konar veislum. Hún segir að fyrsta giggið hafi reyndar verið hálfgerð martröð.

„Þetta getur verið mjög þreytandi starf en líka mjög gefandi og skemmtilegt. Mér finnst maður ekki mega gera of mikið af þessu. Hjá mér stjórnast þetta svolítið af því hvort mikið eða lítið er að gera í leikhúsinu. En mér finnst þetta alveg vel borgað og ég vil gera þetta vel. Mér finnst ég líka fá vel borgað í því ef fólk er hæstánægt með veislustjórn mína. En ég get ekki sagt að þetta hafi byrjað vel hjá mér. Ég byrjaði að skemmta á árshátíðum svona tveimur  árum eftir að ég útskrifaðist úr leiklistarskólanum og það er eiginlega ótrúlegt að ég skyldi halda áfram í þessu eftir fyrsta giggið. Því það var alveg hræðilegt," segir Ólafia Hrönn Jónsdóttir hlæjandi, en hún er Íslendingum að góðu kunn af fjölum leikhúsanna og ýmiss konar þáttum og bíómyndum.

„Ég, Þór Tulinius og Kjartan Bjargmundsson bjuggum til skemmtiprógram til að fara með á árshátíðir og svona og fyrsta pöntunin kom frá Stjórnarráðinu. Sem er víst einn erfiðasti hópurinn til að skemmta. En það vissi ég ekki fyrr en seinna. Það getur verið að hver og einn sé alveg brjálæðislega skemmtilegur, en saman komin í hóp eru þau alveg „killing". Eða voru það allavega þetta kvöld. Þessi árshátíð var haldin á Broadway, kjallaranum á Hótel Íslandi sem var svona frekar erfiður uppá það að ná til gestanna.

Ég var næstum í blackouti af stressi, enda alveg óreynd, en var samt nokkuð viss um að það sem við værum að bjóða upp á væri fyndið. Nú, það er skemmst frá því að segja að við höfðum ekki athygli gesta nema svona í 15 sekúndur, þá fóru þau að tala saman og svo töluðu þau ennþá hærra og í rauninni yfirgáfu okkur Gleðigjafana, eins og við kölluðum okkur. Ég man þegar við vorum alveg búin að missa áhorfendur þá halla ég mér svona fram, ég stóð lengst til hægri og lít yfir á Þór, sem var þá einmitt að gera það sama, og við horfðumst í augu og hugsuðum bæði: „Við erum stödd í Helvíti"."

Ólafía segir að viðbrögðin hafi verið eins og blaut tuska í andlitið, en það sem þau fréttu svo eftir á var sýnu verra. „Vigdís, þáverandi forseti, var þarna gestur líka og við fengum þær fréttir inn í búningsherbergið þar sem við vorum í sjokki að hún hefði sagt: „Ég bara vorkenndi þeim".

Á þeirri stundu hélt ég að hún hefði verið að meina að hún vorkenndi okkur að vera með svona lélegt atriði, og ég sá bara mína sæng útbreidda í þessum bransa. En í dag held ég að hún hafi vorkennt okkur af því að það hlustaði enginn á okkur. Sem betur fer þá var búið að panta Gleðigjafana viku seinna á Selfoss og við vildum standa við gerðan samning, en viti menn, Selfyssingar voru eitilhressir og fannst við svo skemmtileg. Það var ansi góður plástur á sárin," segir Ólafía.

„Þegar Halldóra Geirharðs var nýútskrifuð vorum við fengnar til að gera sketsa fyrir Dagsljós og í framhaldi fórum við að skemmta mikið saman og taka veislustjórn að okkur. Fyrst vorum við alltaf í karakter en ég man að mér fannst alltaf spennandi, og að ég hélt lærdómsríkt, að losa mig við karakterana og vera bara ég sjálf. Dóra nennir þessu ekki lengur. En ég er enn að, launin í leikhúsinu eru líka það lág að þessi aukavinna kemur sér vel. Ég hef alltaf lagt mikið í þetta, farið og kynnst fyrirtækinu fyrir fram og reynt að vera með eitthvað sérsamið um það."

Stjörnulögfræðingurinn fyrirgaf Ólafíu

Þegar við Halldóra Geirharðs vorum að skemmta saman, þá vorum við með fimleikaatriði en svo þegar hún fór frá mér þá setti ég gest í hennar hlutverk. Ein hreyfingin var að snúa hinni manneskjunni á hvolf og halda henni þannig. Þegar ég var veislustjóri hjá þorrablóti Stjörnunnar, þá tók ég mann upp á svið og sneri honum á hvolf. Þetta var fjáröflunarsamkoma og ég ætlaði að sýna gestunum hvernig ég myndi hjálpa þeim að tæma vasana. En ég missti hann," segir Ólafía.

„Ég var búin að æfa mig á honum daginn áður, en þá var hann í öðrum fötum svo þarna á þorrablótinu rann ég á fötunum hans, og hann skall með höfuðið í gólfið. Guði sé lof þá slasaðist hann ekki, sem betur fer. Það hefði verið hræðilegt. En þessi maður, fyrirgaf mér algjörlega, pantaði mig meira að segja í afmælið sitt til að halda fjörinu áfram, en þá var ég að fara til Ástralíu svo ég komst ekki. En mig dauðlangar að snúa honum aftur á hvolf, hann er lögfræðingur, hann hlýtur að lesa þetta blað er það ekki?"

Ólafía segir að hún hafi lært mjög mikið af því að vera í þessum bransa. „Þetta er mjög góð leið til að losa sig við hræðsluna við áhorfendur. En svo er ekki sama hvernig maður segir hlutina og brandarar verða að vera sagðir á ákveðinn hátt svo að þeir virki. Við Dóra pældum mikið í þessu. Og svo eru líka sum orð fyndnari en önnur. Mér hefur fundist mjög gaman að skoða þetta og það er gaman að fá fólk til að hlæja," segir Ólafía.

„Í dag er ég með gítarinn svo er ég líka oft með píanóleikara með mér, hann Þorvald Örn Davíðsson. Það er yndislegt að hafa hann, ungur vel upp alinn drengur, sem spilar fallega á píanó. Ég er með eftirhermusöngva en svo fæ ég líka gestina til að syngja. Það finnst mér allra skemmtilegast. Þegar ég sé allt þetta yndislega fólk syngja vísur eftir mig, það er svo fallegt. Textinn er sko þannig. Mér finnst hlutverk veislustjóra vera mjög mikið að láta gestunum líða vel og að þeim finnist gaman. Mér finnst þeir ekkert endilega þurfa að vera að tapa sér úr hlátri. Það er misjafnt hversu mikið veislustjórinn þarf að hafa sig í frammi. Sum fyrirtæki eru dugleg að koma með heimatilbúin skemmtiatriði, og þá er hlutverk veislustjóra að leyfa þeim að njóta sín og skapa skemmtilega stemningu.

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Fundir & ráðstefnur. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .