Félagið Austurhólar ehf. seldi 40 íbúða fjölbýlishús á Selfossi til félagsins Austurhóla 4 ehf. á 1,87 milljarða króna í lok nóvember.

Á bak við seljandann eru þrjú félög, þar á meðal Hvíthöfði ehf., félag í eigu Kára Árnasonar fyrrum landsliðsmanns í knattspyrnu.

Félögin TB Consulting ehf. í eigu Tryggva Björnssonar og Stofnhús ehf. í eigu hjónanna Jónasar Halldórssonar og Önnu Maríu Þorvaldsdóttur eiga einnig hlut í Austurhólum ehf. Stofnhús er framkvæmdaraðili sem sérhæfir sig í byggingu íbúðarhúsnæðis, en félagið byggði meðal annars Austurhóla 6. Jónas Halldórsson er framkvæmdastjóri og starfa þeir Kári Árnason og Tryggvi Björnsson hjá fyrirtækinu.

Á bak við kaupandann, Austurhólar 4 ehf., eru þeir Jón Óskar Karlsson og bræðurnir Sigurður Straumfjörð og Guðmundur Kristinn Pálssynir. Þeir bræður eru meðal eigenda endurskoðunarfyrirtækisins &Pálsson. Þá er Jón Óskar löggiltur fasteignasali hjá Landmark fasteignamiðlun.