Stærstu hluthafar Eimskips, Landsbanki Íslands og bandaríska fjárfestingafélagið Yucaipa, hafa hvor um sig selt 14% hlut í félaginu fyrir um 5,7 milljarða króna til Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eimskip í kvöld en lífeyrissjóðurinn keypti 14 milljónir bréfa af hvorum aðila, samtals 28 milljónir bréfa.

Í tilkynningunni kemur fram að Straumur fjárfestingabanki hafði milligöngu um viðskiptin sem fara fram í undanfara að mögulegri skráningu Eimskips í kauphöll. Eftir viðskiptin á Lífeyrissjóður verzlunarmanna samtals 14,6% hlut og er þriðji stærsti hluthafi Eimskips á eftir Yucaipa sem samtals á 25,3% hlut og Landsbanka Íslands sem á um 30,3% hlutafjár.

Þessi viðskipti eru í takt við frétt Viðskiptablaðsins um Eimskip frá því í apríl. Þann 18. apríl sl. fjallaði Viðskiptablaðið um fyrirhugaða skráningu félagsins á markað. Í frétt blaðsins kom fram að Landsbankinn og Yucaipa myndu hvor um sig reyna að losa um hluti í félaginu áður en það yrði skráð á markað í haust.

Í frétt blaðsins sagði orðrétt; „... bæði Landsbankinn og Yucaipa hafa, þá helst Landsbankinn, viljað losa um minni hluti áður en félagið verður skráð á markað. Þannig áætla þeir að selja saman allt að 10-15% hlut í félaginu til fagfjárfesta. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er þó ólíklegt að hluturinn verði 15% nema Yucaipa taki þátt, þó svo að nokkrir aðilar hafi viðrað sig með óformlegum hætti við dyr eigendanna. Engar formlegar viðræður hafa þó farið fram en þarna getur atburðarásin orðið hröð þegar formlegar viðræður hefjast.“

Sem fyrr segir er stefnt að skráningu Eimskips í Kauphöllina síðla hausts. Gert er ráð fyrir því að fram fari almennt hlutafjárútboð samhliða skráningu þar sem fjárfestum og almenningi gefst kostur á að eignast hlut í félaginu. Stefnt er að því að setja um 30-35% hlut á markað. Þá herma heimildir Viðskiptablaðsins að Yucaipa hyggist eiga hlut sinn til lengri tíma en Slitastjórn Landsbankans hyggur eðli málsins samkvæmt á sölu þegar fram í sækir.