Rússnesk yfirvöld hafa nú lýst því yfir að ríkið hyggist selja 19,5% hlut í olíufélaginu Rosneft. Salan bendir til þess að hinu opinbera skorti fé, en halli hefur verið á ríkissjóð um nokkurt skeið og hefur gjaldeyrisvaraforði rússneska seðlabankans sjaldan verið minni.

Samkvæmt fréttaveitu Reuters telur Alexey Ulyukayev, efnahagsráðherra Rússa, að salan á Rosneft muni færa þeim allt að 748,3 milljarða Rúbla. Líklegt er að fyrirtækið kaupi sjálft eignarhlutinn sinn af ríkinu og geti svo selt bréfin áfram á næsta ári.

Stærsti hluthafi Rosneft er fyrirtækið Rosneftegaz en félagið á um 69,5% í Rosneft. Forstjóri Rosneft er Igor Sechin, en hann gegnir einnig stöðu stjórnarformanns Rosneftgaz.