Stjórn Nýherja hf hefur sett 25% eignarhlut í TEMPO ehf. í söluferli. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Félagið hefur ráðið Icora Partners sem umsjónaraðila, með lokuðu útboði. Þess er vænst að söluferlið muni hefjast á þriðja ársfjórðungi 2015.

„Vöxtur og viðgangur TEMPO hefur gengið vonum framar á undanförnum árum og við höfum væntingar um að svo verði áfram. Markmiðið með sölu á minnihluta í TEMPO ehf. er að tryggja fjármagn og þekkingu til frekari vöruþróunar og enn öflugri tengsla og markaðssetningar erlendis,“ segir Finnur Oddsson forstjóri Nýherja í tilkynningunni.

60% vöxtur í ár

Tempo hefur notið mikillar velgengni að undanförnu. Erlendar tekjur af hugbúnaðarlausninni jukust um 84% á milli áranna 2013 og 2014 og námu erlendu tekjurnar 45% af heildartekjum TM Software í fyrra. Tempo stefnir á 60% tekjuvöxt á þessu ári. Áætlaðar tekjur félagsins í ár eru 9 milljónir dollara, eða sem samsvarar um 1.200 milljónum króna. Í ársskýrslu Nýherja fyrir árið 2014, sem kom út í lok janúar, kemur fram að 50 starfsmenn vinni við Tempo hugbúnaðinn. Nú vinna 67 starfsmenn hjá félaginu, þar af 3 í skrifstofum félagsins í Montreal.

Lítið ævintýri

JIRA, hugbúnaðurinn sem Tempo byggist á, er gefinn út af ástralska fyrirtækinu Atlassian. Finnur segir í samtali við Viðskiptablaðið að kaup Atlassian á Tempo hafi borið á góma fyrir nokkrum árum síðan. „Þeir eru mjög ánægðir með að við sjáum um þessa þróun vegna þess að þeir telja að við höfum gert þetta hraðar en þeir hefðu gert þetta sjálfir,“ segir Finnur og bætir við að formlegar kaupviðræður hafi aldrei hafist.

Finnur segir aðspurður að velgengni Tempo hafi haft frábær áhrif á Nýherja. Möguleikar í hugbúnaðarþróun á Íslandi séu miklir og Tempo sé bara eitt dæmi um þau litlu ævintýri sem orðið hafa hér á landi. Spurður um það hvort fleiri vörur á borð við Tempo séu í þróun innan Nýherja segir Finnur: „Það eru fullt af áhugaverðum lausnum hjá okkur. Það eru kannski ekki neinar sem eru komnar á þennan stað, en það er líklegt að þær verði á þessum stað á einhverjum tímapunkti.“

Mest selda viðbótin

JIRA er forrit sem gerir liðsheildum kleift að samhæfa vinnu sína og fylgjast með stöðu verkefna. Atlassian hefur um 40.000 viðskiptavini og yfir 1.100 starfsmenn. Tempo þróar viðbætur (e. add-ons) við JIRA hugbúnaðinn sem auka virkni hans. Um er að ræða hugbúnað sem upprunalega var þróaður sem innanhússlausn hjá TM Software en reyndist hafa notagildi fyrir fyrirtæki um allan heim.

20% af notendum JIRA nota nú hugbúnað frá Tempo. Tempo Timesheets er eins og stendur mest selda viðbótin sem í boði er á markaðssvæði Atlassian. Önnur vara, Tempo Planner, er í níunda sæti. Nýjasta vara Tempo, Tempo Books, kom út 27. apríl síðastliðinn. Þegar hafa nokkur fyrirtæki keypt Tempo Books og fleiri sölur eru í farvatninu.