Hlutafjárútboð Play fyrir skráningu félagsins á First North markaðinn mun fara fram í lok næstu viku, dagana 24.-25. júní. Útboðið hefst því á sama degi og fyrsta farþegaflug félagsins, frá Keflavík til London. Áætlaður fyrsti viðskiptadagur með hlutabréf Play á First North verður 9. júlí næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Arctica Finance sem er umsjónaraðili útboðsins.

Boðnir verða til sölu samtals 221.906.800 hlutir að nafnverði í formi nýrra hlutabréfa í Fly Play hf., eða um 31,7% hlutur í flugfélaginu. Fáist full áskrift verður söluandvirði útboðsins á bilinu 3,99-4,31 milljarðar króna.

Í boði verða tvær áskriftarleiðir í útboðinu. Tilboð undir 20 milljónum króna falla undir áskriftarleið A, þar sem um 29% af hlutum í útboðinu verða í boði. Fast verð í flokki A verður 18 krónur á hlut og heildarsöluandvirði 1,15 milljarðar króna. Lágmarkstilboð verður 100 þúsund krónur og leitast verður við að skerða ekki áskriftir undir 500 þúsund krónur.

Í tilboðsbók B verða tilboð yfir 20 milljónum króna. Verðbilið er rýmra í þessari áskriftarleið eða innan verðbilsins 18-20 krónur á hlut. Salan fer fram á föstu verði, sem ákvarðast jafnt og það lægsta af samþykktum tilboðum en stuðst verður við hollenskt útboð. Söluandvirði í áskriftarleið B verður verður á bilinu 2,84 - 3,16 milljarðar króna að söluandvirði.