Fasteignafélagið Kaldalón hefur komist að samkomulagi um að selja 50% eignarhlut félagsins í Steinsteypunni til Skuggasteins, dótturfélags SIKMAS sem er í eigu Kristjáns Gunnars Ríkharðssonar. Kaupverð nemur 750 milljónum króna auk mögulegra viðbótargreiðslna upp á allt að 100 milljónir, tengdum rekstrarhagnaði félagsins á árunum 2022 og 2023.

„Söluferlið er liður í yfirlýstri stefnu Kaldalóns hf. að auka vægi tekjuberandi fasteigna í starfsemi félagsins og selja eignir utan kjarnastarfsemi þess. Aukið handbært fé við sölu verður notað til þess að styðja við áframhaldandi vöxt félagsins,“ segir í tilkynningu sem Kaldalón sendi frá sér í gærkvöldi.

Fram kemur að fjárhagslegri, lögfræðilegri og tæknilegri áreiðanleikakönnun vegna viðskiptanna sé lokið. Viðskiptin eru þó háð skilyrðum, m.a. um afstöðu Samkeppniseftirlitsins og að aðrir hluthafar Steinsteypunnar falli frá forkaupsrétti.

Kynna fjárfestingartækifæri í ágúst

Í tilkynningunni kemur fram að Kaldalón sé með til skoðunar frekari tækifæri í fjárfestingu tekjuberandi eigna. Áætlað er að kynna þau frekar á fjárfestakynningu sem fyrirhuguð er 23. ágúst næstkomandi í framhaldi af birtingu hálfs árs uppgjörs félagsins.

Sjá einnig: Kaldalón á aðalmarkað í haust

Tekjuberandi eignir Kaldalóns eru nú um 51,5 þúsund fermetrar en samanlagt matsvirði þeirra í árslok 2021 auk kaupverðs þeirra eigna sem keyptar hafa verið á árinu er um 24,1 milljarður króna.

Bókfært virði þróunareigna félagsins um áramót auk kaupverðs lóðar að Fossaleyni á árinu 2022 er um 2,2 milljarðar. Kaldalón telur að virði þróunareigna verði undir 1,0 milljarði króna í árslok gangi söluáform eftir.

Leigutekjur tekjuberandi eigna á ársgrundvelli nema um 2.030 milljónum þegar veltutengdir viðaukasamningar við rekstraraðila hótela í eigu félagsins falla úr gildi umnæstu áramót. Rekstrarhagnaður tekjuberandi eigna (NOI) á ársgrundvelli, í fullu rekstrarári, er áætlaður 1.525–1.585 milljónir króna. „Þá gerir félagið ráð fyrir viðbótar einskiptiskostnaði tengdum umbreytingar- og vaxtarfasa félagsins.“