Félagið L Brands, móðurfélag Victoria's Secret, ætlar að selja 55% hlut í nærfatarisanum til bandaríska fjárfestingafélagsins Sycamore Partners á 525 milljónir dollara (tæplega 67 milljarða króna). BBC greinir frá.

Leslie Wexner,forstjóri L Brands og stjórnarformaður Victoria's Secret, mun á sama tíma láta af störfum. Hann kveðst fullviss um að með því að gera nærfataframleiðandann að einkafyrirtæki muni reksturinn blómstra á ný.

Victoria's Secret stóð undir nærri helmingi af 13,2 milljarða dollara tekjum L Brands á síðasta ári, en sala nærfatarisans dróst þó töluvert saman á árinu.

L Brands ætlar í kjölfar sölunnar að einblína á rekstur snyrtivörukeðjunnar Bath & Body Works.