*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Innlent 17. maí 2018 09:19

Selja að minnsta kosti fjórðung í Arion

Arion banki tilkynnir um útboð fyrir lok júní. Attestor og Goldman Sachs verða að hluta undanskildir sölufresti.

Ritstjórn
Höfuðstöðvar Arion banka eru í Borgartúni.
Haraldur Guðjónsson

Að minnsta kosti 25% af eignarhlutum í Arion banka verða í boði í frumútboði bankans sem hefst á næstu vikum. Auk þess mun Kaupþing hafa rétt á að selja stærri hlut ef eftirspurnin í útboðinu fer yfir ákveðin mörk, svokallaður grænskór.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um hefur stefnt að því lengi að Arion banki fari á markað, en samkvæmt tilkynningu bankans frá í morgun er talað um að skráningin fari fram á fyrri hluta þessa árs.

Það ætti að þýða að skráningin fari í síðasta lagi fram í lok júní. Jafnframt kemur fram að skráning bréfanna verði í kauphöll Nasdaq á Íslandi og Nasdaq í Stokkhólmi, en þar verður hún í formi svokallaðra Depositary Receipts í Svíþjóð.

Það er í raun ígildi hlutabréfa, sem tryggð eru af sænsku fjármálafyrirtæki, þeim fylgir atkvæðaréttur og annað slíkt, en gætu undir ákveðnum kringumstæðum verið með minni seljanleika.

Eigendur skuldbinda sig til að selja ekki meira í 180 daga, með undantekningum

Eigendur Arion banka hyggjast skuldbinda sig til að selja ekki fleiri bréf en þau sem verða í boði í frumútboðinu í 180 daga eftir það, en þó eru undantekningar á því. Munu Attestor Capital og Goldman Sachs International hafa rétt á að selja hluta af sínum bréfum.

Gildir það um þann eignarhluta sem er umfram 10,44 prósentustig af 12,44% eignarhlut Attestor, það er 2 prósentustig af eignarhlutum í bankanum. Sama gildir um það sem er umfram 2,57 prósentustig af eignarhlut Goldman Sachs fjárfestingarbankans, en hann á í heildina 3,37% í Arion banka. Það þýðir að um er að ræða 0,8% af bréfum í félaginu.

Skipting eignarhluta bankans er nú sem hér segir:

  • 55,57% er í eigu Kaupþings (sem er að hluta í eigu annarra eigenda Arion banka).
  • 12,44% er í eigu Attestor Capital
  • 9,99% er í eigu Taconic Capital
  • 6,58% er í eigu Och-Ziff Capital
  • 9,50% er í eigu Arion banka sjálfs
  • 3,37% er í eigu Goldman Sachs

Leiðarar, pistlar og skoðanadálkar um Arion banka:

Fleiri fréttir um málefni Arion banka: