Kanadíska fyrirtækið IMAX, sem þekktast er fyrir IMAX-kvikmyndatæknina, ætlar á næstu misserum að bjóða upp á uppsetningu á alvöru kvikmyndahúsi í heimahús. Hvert kvikmyndatjald, sem nær frá gólfi til lofts, mun kosta 2 milljónir dollara, jafnvirði um 250 milljónum króna.

Wall Street Journal fjallar um heimabíó IMAX um helgina. IMAX vonast til þess að ná til nýs hóps auðugra einstaklinga með tjöldunum. Sagt er að Seth MacFarlane, höfundur Family Guy þáttanna, Arnold Schwarzenegger og Tom Cruise eigi í viðræðum við IMAX um kaup á kvikmyndabúnaðinum.

IMAX heimabíóin verða eflaust ekki staðalbúnaður á mörgum heimilum, en aðeins verða tvö kvikmyndatjöld sett upp á næstu sex mánuðum, og búist er við að um sex til viðbótar fari í notkun á næstu tólf mánuðum.