Gengið hefur verið frá sölu á ísfisktogaranum Ásbirni RE 50 til íransks útgerðafélags fyrir 450 þúsund dollara eða því sem jafngildir ríflega 44 milljónum króna miðað við gengi dagsins í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu HB Granda til Kauphallarinnar.

Ásbjörn hefur þjónað HB Granda og forverum þess í langan tíma. Skipið var smíðað árið 1978 og verður því 40 ára á næsta ári. Togarinn víkur nú fyrir nýsmíðinni Engey RE. „Ásbjörn var einstaklega aflasælt skip og nam samanlagður afli togarans tæpum 230 þúsund tonnum,“ segir í tilkynningunni frá útgerðinni.