Stjórnvöld á Spáni hafa samið um selja Banco de Valencia sem ríkið þurfti að bjarga frá gjaldþroti fyrir ári með því að taka hann yfir sökum skuldaklafa. Kaupandinn er Caixabank, þriðji stærsti banki Spánar. Verðið er ein evra, jafnvirði 162 íslenskra króna.

Áður en til sölunnar kom endurfjármagnaði ríkið bankann með 4,5 milljörðum evra auk þess að færa lélegar eignir úr honum inn í eignastýringarfyrirtæki. Caixa Bank fær auk innstæðna og útlánasafns 400 skrifstofur Banco de Valencia. Fari svo að Caixabank tapi á einhverjum af útlánum sínum þá felur sölusamningurinn í sér að hið opinbera taki á sig hluta af tapinu.

Spænska ríkið hefur þurft að taka yfir fjóra spænska banka á síðastliðnum tólf mánuðum, samkvæmt umfjöllun Dow Jones-fréttaveitunnar.