Margir kannast eflaust við fyrirtækið Trefjar ehf. sem framleiðanda heitra potta en að sögn Þrastar Auðunssonar, framkvæmdastjóra þess, er sú starfsemi ekki nema 3-5% af rekstri fyrirtækisins. Frá árinu 1978 hefur Trefjar starfað samhliða að gerð heitra potta og báta, en það er síðarnefndi hluti rekstursins sem er fyrirferðarmestur.

Trefjar flytja út báta víða um heiminn en sterkasti markaðurinn er í Evrópu að sögn Þrastar. Viðskiptavinir Trefja eru fjölbreyttur hópur og meðal þeirra er munkaklaustur í Grikklandi sem hefur keypt tvo báta af fyrirtækinu. „Á þessum skaga þar sem við seldum bátana er 21 klaustur en klaustrið sem keypti þá heitir Vatopedi og er hluti af grísku rétttrúnaðarkirkjunni. Það þjónar í raun sama hlutverki og Vatíkanið gerir í kaþólskri trú. Það er líka sérstaklega þekkt fyrir að geyma stokkabelti sem er hægt að rekja beint til Maríu meyjar. Einu sinni var sá gripur sýndur í Rússlandi og þá var hann verndaður af heilli hersveit. Ég hef líka alltaf minnst á það þegar ég ræði um þetta klaustur að það er sjálfu sér nægt í öllu. Hvort sem við erum að ræða um mat, klæði eða fleira þá er sjálfsþurftabúskapur þeirra algjör.“

Klaustrið gríska er þó á meðal fjölmarga viðskiptavina Trefja en samkvæmt Þresti er árið 2014 fullbókað hjá þeim.