Fyrirtækið Hafmynd ehf., sem framleiðir djúpfarið Gavia, hefur gengið frá sölusamningi á tveimur djúpförum til NAMSA, innkaupadeildar Nató.

Að sögn Júlíusar B. Benediktssonar, framkvæmdastjóra Hafmyndar, er þetta mikilvægur áfangi því þetta er fyrsta sala félagsins til herja.

„Við erum annað fyrirtæki í heiminum sem selur tæki til þessarar notkunar. Þarna gæti því verið um að ræða mikilvægan áfanga fyrir okkur,“ sagði Júlíus.

Þessi sala núna kemur til viðbótar á tveimur djúpförum í síðustu viku en þau voru seld til félags sem meðal annars þjónustar BP olíufélagið. Hefur verið gengið frá því að Hafmynd starfi með félaginu í Bakú við Kaspíahaf.