„Við ætlum að selja hana [lóðina] núna ef viðunandi tilboð berst,“ segir Ingi Guðmundsson, framkvæmdastjóri Landeyjar, í samtali við Viðskiptablaðið en Landey ætlar að auglýsa Austurbakka 2 til sölu.

Verðmiðinn á hinum svokallaða Landsbankareit, Austurbakka 2, var 750 milljónir króna samkvæmt kaupréttarsamningi Landeyjar og Situsar, lóðafélags Hörpu. Félagið Situs keypti Landsbankareitinn af gamla Landsbankanum á 750 milljónir til að gera kaupréttarsamning við Ármannsfell um að félagið myndi fá að kaupa reitinn á sömu upphæð. Landey, dótturfélag Arion banka, sameinaðist Ármannsfelli og hefur nú reitinn til sölu.

Aðspurður um hvað viðunandi tilboð feli í sér segist Ingi ekki vilja fara út í þær tölur. Ingi segir að nú ætli Landey að kanna hvort einhver áhugi sé á lóðinni. Ef svo reynist ekki þá muni félagið bíða og athuga hvað hægt sé að gera í stöðunni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.