Ríflega 1.100 fermetra húsnæði Landsbankans við Austurveg þar sem aðalumferðin liggur í gegnum Selfoss hefur verið auglýst til sölu, en fasteignamatið er samtals 204.350.000 krónur. Húsið sem stendur á 300 fermetra grunnfleti og 7.300 fermetra lóð skiptist í íbúð sem er metin á 21,1 milljón krónur og skrifstofu sem metin er á tæpar 183,3 milljónir króna.

Húsnæðið, sem reist var á árunum 1949 til 1953, var hannað eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar fyrrum húsameistara ríkisins. Á vef Landsbankans segir að honum hafi ekki enst aldur til að fylgja verkinu eftir en hann lést árið 1950.

Þar er húsið jafnframt sagt löngum hafa verið talið eitt fallegasta húsið á Suðurlandi, en þess má geta að á Ísafirði prýðir sams konar hús aðalgötuna í gegnum miðbæinn. Höfuðstöðvar bankans í dag í Aðalstræti í Reykjavík sem er fyrirmynd hússins hefur einnig verið sagt óhentugt en ríkisbankinn byggir nú nýjar höfuðstöðvar fyrir tæplega 12 milljarða króna .

Íbúð húsvarðar var í kjallaranum en útibússtjóra uppi

Í húsinu er eins og áður segir gert ráð fyrir íbúð á efri hæð sem reyst var fyrir útibússtjóra og svo var önnur íbúð fyrir húsvörð í kjallara, en nú er efri hæðin í útleigu.

Ástæða sölunnar er sögð vera breytingar á bankaþjónustu, sem hafi valdið því að útibúið þurfi nú minna húsnæði undir starfsemi sína, en gert sé ráð fyrir að útibúið verði áfram í húsinu þar til starfsemin geti hafist á nýjum stað á Selfossi.

Bankinn hefur haft starfsemi í bænum frá árinu 1918, sem hófst í Tryggvaskála, en flutt var í nýja húsið þegar það var fullbúið árið 1953. Austurendi efri hæðarinnar, sem ekki hýsti íbúð útibússtjóra, var leigður út fyrstu árin.