Ef allt gengur samkvæmt áætlun þá verða eignir sem ríkissjóður eignaðist í gegnum slitabú föllnu bankanna seldar á næstu þremur árum. Einnig er gert ráð fyrir því að félaginu sem heldur utan um eignirnar og söluna verði slitið eigi síðar en 31. desember 2018. Þetta kemur fram í greinargerð fjármálaráðuneytisins um framgang áætlunar um losun hafta.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær þá eignaðist ríkissjóður eignarhlut í 16 félögum og sjóðum við greiðslu stöðugleikaframlaga. Þeirra á meðal eru Eimskip, Íslandsbanki hf og Lyfja hf.

Í greinargerðinni kemur einnig fram að tekjum af stöðugleikaframlögunum verði í fyrsta lagi varið til að mæta lækkun tekna af sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki og í öðru lagi til uppgreiðslu skuldabréfs sem ríkissjóður gaf út til endurfjármögnunar Seðlabanka Íslands. Það skuldabréf stóð í 90 milljörðum króna í árslok 2015.