*

þriðjudagur, 31. mars 2020
Innlent 31. janúar 2014 09:33

Selja Færeyingum uppsjávarvinnslukerfi

Um 20 fyrirtæki víðs vegar að af Íslandi koma að uppbyggingu verksmiðju í Fuglafirði.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Skaginn hf. og Kælismiðjan Frost ehf. hafa undirritað samning við nýtt félag í Færeyjum, P/f Pelagos, um kaup þess á nýju uppsjávarvinnslukerfi til uppsetningar í Fuglafirði á aðeins rúmlega sex mánuðum. Í tilkynningu vegna samningsins segir að heildarverðmæti hans sé rúmir þrír milljarðar króna. Vinnslan í Fuglafirði verður við hlið Havsbrun, öflugrar fiskimjölsverksmiðju, en eigendur hennar eru aðilar að P/f Pelagos ásamt útvegsfyrirtækjunum Christian í Grótinum og Framherji í Færeyjum. 

„Vinnsla hefst í Fuglafirði strax í ágúst nk. og miðast afköst við 600 tonn á sólarhring. Stefnt er að því að auka afköstin í 1000 tonn. Ýmsar nýjungar munu birtast í nýju verksmiðjunni í Fuglafirði sem auka afköst og gæði vinnslunnar. Kælismiðjan Frost ehf. annast alla uppbyggingu á frystikerfi verksmiðjunnar en systurfyrirtækin Skaginn hf. og Þorgeir & Ellert hf. leiða vinnu við byggingu verksmiðjunnar ásamt Kælismiðjunni Frosti ehf. og 3X Technology á Ísafirði. Kaupendurnir sjá um uppbyggingu húsnæðisins í samræmi við innri hönnun Skagans hf,“ segir í tilkynningunni. 

Verksmiðjan í Fuglafirði verður byggð upp á svipaðan hátt og hjá Varðinn Pelagic á Tvøroyri sem Skaginn hf. afhenti árið 2012. Hún tók á móti um 100 þúsund tonnum af hráefni á síðasta heila rekstrarári sínu. Auk þessara tveggja stóru samninga í Færeyjum er stutt síðan Skaginn hf. samdi við Skinney-Þinganes hf. um vinnslulínur í nýja uppsjávarvinnslu með 800 tonna afkastagetu á sólarhring. Hana á að afhenda 1. júní næstkomandi.

Um 20 fyrirtæki víðs vegar að af landinu koma að uppbyggingu verksmiðjunnar í Fuglafirði enda stórt verkefni sem ljúka þarf á skömmum tíma. Auk fyrrnefndra fyrirtækja koma að verkinu aðrir innlendir aðilar eins og Marel hf., Style technology ehf., Straumnes rafverktakar ehf., Samhentir- kassagerð ehf., Blikkverk ehf., Vélsmiðja Ólafs Guðjónssonar ehf., Jötunstál ehf., Rafeyri ehf., Blikksmiðja Guðmundar ehf., Stýrivélaþjónustan ehf., Benni Blikk ehf., Blikkrás ehf., Útrás ehf., HG verktaki ehf., Frystitækni ehf. og Slippurinn.