Fasteignafélögin Nafir ehf. og Summit ehf. í eigu Ingimars Jónssonar og Ólafs Stefáns Sveinssonar, sem keyptu Pennann Eymundsson fyrr á þessu ári ásamt Stefáni D. Franklin, hafa verið sett í sölumeðferð, en um er að ræða eitt stærsta fasteignasafn í einkaeigu hér á landi, samtals um 23 þúsund fermetrar.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Hvorki Ólafur né Ingimar vildu tjá sig um málið þegar blaðið leitaði eftir því.  Aðspurður sagði Ólafur hins vegar að ekki væri ráðist í söluna í tengslum við fjármögnun á kaupunum á Pennanum.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru allar fasteignir í eigu félaganna til sölu. Einn viðmælandi Morgunblaðsins, sem hefur áratuga reynslu á fasteignamarkaði, segir ekki ólíklegt að eignasafnið gæti verið um 4,5 milljarða króna virði, en til stendur að selja það í heilu lagi.