*

laugardagur, 18. janúar 2020
Innlent 27. ágúst 2019 13:08

Selja fasteignir á 575 milljónir

Reitir selja tæplega 3000 fermetra fasteignir í Fosshálsi sem hýsa bifreiðaverkstæði og útivistarverslun.

Ritstjórn
Tveir forláta BMW bílar fyrir utan verkstæði Eðalbíla í Fosshálsi 9-11.
Haraldur Guðjónsson

Fasteignafélagið Reitir hafa selt tvær fasteignir í Fosshálsi fyrir 575 milljónir króna, og verða þær greiddar með reiðufé samkvæmt tilkynningu félagsins.

Samtals er um að ræða 2925,7 fermetra, svo fermetraverðið er að jafnaði tæplega 200 þúsund krónur. Salan er sögð hafa óveruleg áhrif á áætlaðan rekstrarhagnað Reita á árinu 2019, en síðustu ár hefur rekstrarhagnaðurinn af þessum fasteignum numið um 20 milljónum króna á ári.

Annars vegar er um að ræða Fossháls 5-7 þar sem verslunin Útilegumaðurinn er til húsa og hins vegar Fossháls 9-11, þar sem bifreiðaverkstæðið Eðal bílar, sem sérhæfir sig í viðgerðum á BMW og Land Rover bílum er til húsa.

Afhending eignanna er áætluð þann 1. október næstkomandi að uppfylltum þeim fyrirvörum sem gerðir eru af hálfu kaupanda, en fyrirvari er gerður um fjármögnun kaupanna og áreiðanleikakönnun á fasteignunum og þeim réttindum og skyldum sem þeim fylgja.

Stikkorð: Reitir rekstur Fossháls