*

þriðjudagur, 1. desember 2020
Erlent 27. október 2020 07:06

Selja flugvélamat í matvöruverslunum

Finnair selur mat sem vanalega er í boði fyrir farþega á fyrsta farrými í matvöruverslunum og koma þannig í veg fyrir uppsagnir.

Ritstjórn

Finnskir aðdáendur flugvélamatar geta tekið gleði sína á ný því finnska flugfélagið Finnair, sem finnska ríkið á ríflega helmingshlut í, hefur hafið sölu á mat sem vanalega er í boði fyrir farþega á fyrsta farrými í matvöruverslunum. Vonast flugfélagið til þess að með þessu megi koma í veg fyrir að segja þurfi upp starfsfólki sem sér um að útbúa matinn, að því er kemur fram á vef Reuters.

Kórónuveirufaraldurinn hefur líkt og þekkt er orðið nær þurrkað út eftirspurn eftir flugferðum á alþjóðavísu. 

Máltíðarnar hafa að sögn flugfélagsins strax fengið góðar viðtökur. Frá því að sala þeirra hófst í verslun nálægt höfuðstöðvum Finnair á Helsinki-Vantaa höfðu 1600 máltíðir verið seldar innan fárra daga. Stefnir flugfélagið því á að bjóða upp á máltíðarnar í fleiri verslunum.

Marika Nieminen, yfirmaður eldhúss Finnair, segir í samtali við Reuters að allir starfsmenn flugfélagsins reyni að leita nýrra leiða til að afla tekna þar til faraldurinn hefur verið kveðinn niður.  

Stikkorð: Finnair flugvélamatur