„Við höfum verið að vaxa um tvö til þrjú hundruð prósent milli ára," segir Gunnar Hilmarsson sem ásamt eiginkonu sinni Kolbrúnu Petreu Gunnarsdóttur hannar föt fyrir konur og karla undir vöruheitinu Andersen & Lauth.

Þau stofnuðu fyrirtækið árið 2006 og eiga nú þrjár sérverslanir á Laugaveginum í Reykjavík. Þau hafa þó aðallega verið í útflutningi og eru umboðsmenn og dreifingaraðilar á þeirra vegum í tólf löndum, til dæmis á hinum Norðurlöndunum, í Hollandi, Grikklandi, Englandi, Frakklandi og Belgíu.

Fötin eru seld í hönnunarverslunum í um það bil 40 löndum víða um heim, þar á meðal í Sádí-Arabíu, svo dæmi sé nefnt.

Um 25 manns vinna hjá fyrirtækinu hér heima en um fimmtíu manns koma að sölu línunnar erlendis. Fötin eru hönnuð hér en framleidd meðal annars í Indlandi, Kína og Portúgal. Gunnar, sem einnig er formaður Fatahönnunarfélagsins og stjórnarformaður Hönnunarmiðstöðvar Íslands, segir að hönnun sé einn helsti vaxtabroddurinn í atvinnulífi Íslendinga. Andersen & Lauth sé gott dæmi um fyrirtæki sem dragi tekjur til landsins.

„Við sitjum hér og hönnum föt, þau eru að vísu ekki framleidd á Íslandi en tekjurnar koma hingað." Þegar hann er beðinn að upplýsa um umfang rekstursins svarar hann: „Við vorum mjög fljót að velta hundruðum milljóna króna."

Ítarlegra viðtal er við Gunnar Hilmarsson í Viðskiptablaðinu sem kemur út í kvöld.