Eignabjarg, dótturfélag Arion banka, hefur selt matvælafyrirtækið Fram Foods Ísland. Þetta var lokahnykkurinn á sölu allra rekstrareininga Fram Foods. Kaupendur eru hópur fjárfesta sem leiddur er af útgerðarfyrirtækinu Berghóli ehf. Félagið er skráð í Reykjavík og er Lúðvík Börkur Jónsson framkvæmdastjóri félagsins.

Fram Foods var upphaflega hluti af Bakkavör og framleiðir kældar sjávarafurðir, m.a. hogn, kavíar og síld. Um mitt ár 2003 keyptu nokkrir starfsmenn Bakkavarar reksturinn að stórum hluta og hófu sjálfstæðan rekstur. Helstu eigendur Fram Foods árið 2009 voru Bakkavör Group, með 31% hlut, og Kaupþing, sem átti 26%. Eignabjarg, dótturfélag Arion banka, tók hins vegar reksturinn yfir árið 2010 og setti eignir í söluferli. Áður en bankinn tók félagið yfir  var búið að skilja reksturinn í Frakklandi frá Fram Foods. Reksturinn þar er nú í söluferli.

Fram kemur í tilkynningu frá Arion banka að áður en Berghóll og fleiri keyptu íslenska hluta Fram Foods var búið að selja rekstrareiningar í Síle, Finnlandi og Svíþjóð.