Kjálkanes ehf. seldi hlutabréf í Síldarvinnslunni (SVN) fyrir tæplega 1,5 milljarða króna í morgun. Félagið hefur nú selt hlut í Síldarvinnslunni fyrir rúmlega 1,95 milljarða króna frá því í gær. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Alls seldi Kjálkanes um 30,4 milljónir hluta, eða um 1,8% hlut, í Síldarvinnslunni á síðasta sólarhring og stendur hlutur félagsins nú í 17,4%. Ekki er búið að uppfæra hluthafalista Síldarvinnslunnar frá skráningu félagsins á aðalmarkað Nasdaq í lok maí en miðað við hann er Kjálkanes enn næst stærsti hluthafi SVN. Samherji er stærsti hluthafinn með 32,6% en samanlagt eiga þessi tvö félög 50,08% af hlutafé Síldarvinnslunnar.

Sjá einnig: Spyrja um tengsl Samherja og SVN

Systkinin Ingi Jóhann Guðmundsson og Anna Guðmundsdóttir eru stærstu hluthafar Kjálkaness með tæplega fjórðungshlut hvort um sig. Þau sitja einnig í stjórn Síldarvinnslunar.

Eigendur Kjálkaness eru þeir sömu og eiga útgerðina Gjögur á Grenivík en Björgólfur Jóhannsson, sem nýlega lét af störfum sem forstjóri Samherja, er meðal tíu stærstu hluthafa útgerðarinnar Gjögurs.