*

mánudagur, 16. maí 2022
Innlent 4. maí 2021 08:58

Selja fyrir 25 milljarða í SVN

Samherji og fleiri aðilar munu hið minnsta selja 26,3% hlut í Síldarvinnslunni í hlutafjárútboði í næstu viku fyrir skráningu á markað.

Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Í útboði fyrir skráningu Síldarvinnslunnar á markað verða hið minnsta 26,3% hlutur í félaginu seldur fyrir 24,6 milljarða króna sé miðað við lægst verðbil útboðsins, sem nemur 55 krónum á hlut. Heimilt er að stækka útboðið þannig að 29,3% hlutur verði seldur á 27,4 milljarða króna hið minnsta. Miðað við lægra bil verðmatsins er Síldarvinnslan í heild metin á um 93,5 milljarða króna.

Seljendur í útboðinu eru Samherji, sem í dag er stærsti hluthafi félagsins, Kjálkanes ehf., sem er í eigu sömu aðila og eiga útgerðarfélagið Gjögur, en Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Samherja er þar meðal hluthafa. Þá munu Eignarhaldsfélagið Snæfugl ehf., Hraunlón ehf. og Síldarvinnslan sjálf einnig selja hluti í útboðinu.

Selja á 447,6 milljónir hluta sem nemur 26,3% hlut í félaginu. Verði umframeftirspurn í útboðinu er hugsanlegt að 51 milljónir hluta til viðbótar verði seldir og þá alls 29,3% hlutur í félaginu.

Útboðið hefst klukkan tíu mánudaginn 10. maí og lýkur klukkan fjögur miðvikudaginn 12. maí og að niðurstaða útboðsins verði tilkynnt föstudaginn 14. maí. Ráðgert er að hefja viðskipti hefjist með hluti í Síldarvinnslunni í Kauphöllinni þann 27. maí.

Tvær tilboðsbækur verða í útboðinu. Í tilboðsbók A verða boðnir 90,9 milljónir hluta á verðbilinu 55 til 58 krónur á hlut. Þar er lágmarksfjárhæð áskriftar 100.000 krónur en hámarki 20 milljónir króna. Í tilboðsbók B verða boðnir 356,7 milljónir hluta þar sem bjóða þarf hærra en 20 milljónir króna og þar er lágmarksverð 55 krónur á hlut.

Síldarvinnslan hagnaðist um 5,3 milljarða króna á síðasta ári en rekstrartekjur námu um 25 milljörðum króna.

Fyrir útboðið eru stærstu hluthafar Síldarvinnslunnar eftirfarandi:

  • Samherji hf 758.851.710 44,64%
  • Kjálkanes hf 581.880.524 34,23%
  • Samvinnufélag útgerðarmanna 186.454.376 10,97%
  • Eignarhaldfélagið Snæfugl ehf 90.000.000 5,29%
  • Hraunlón ehf 27.491.530 1,62%
  • Síldarvinnslan hf 15.649.417 0,92%
  • Olíusamlag útvegsmanna í Neskaupstað 14.293.030 0,84%
  • Hampiðjan hf 3.029.280 0,18%
  • Guðrún M. Jóhannsdóttir 1.509.129 0,09%
  • Skinney Þinganes hf 1.117.772 0,07%
Stikkorð: Síldarvinnslan