*

fimmtudagur, 22. október 2020
Innlent 1. júlí 2019 13:05

Kaupþing að selja allt sitt í Arion

Kaupþing vinnur að því að selja þau 20% sem það á eftir í Arion banka fyrir á þriðja tug milljarða króna.

Ingvar Haraldsson
Benedikt Gíslason, nýr bankastjóri Arion banka.
Aðsend mynd

Kaupþing vinnur að því að ganga frá sölu á þeim 20% hlut sem félagið á eftir í Arion banka. Miðað við núverandi gengi á hlut í bankanum má áætla að söluandvirðið sé nálægt 28 milljörðum króna. Áætlað er að kaupendurnir verði hópur núverandi hluthafa bankans og aðrir fagfjárfestar. Vonast er til að gengið verði frá viðskiptunum á næstu dögum.

Um tímamót verður að ræða enda hefur Kaupþing verið stærsti hluthafi bankans frá því að hann var endurreistur eftir bankahrun. Kaupþing hélt lengst af á 87% hlut í bankanum á móti 13% hlut ríkisins. Kaupþing keypti einnig 13% hlut ríkisins í Arion banka í febrúar 2018 fyrir 23 milljarða króna. Á síðustu árum hefur Kaupþing jafnt og þétt selt hluti í bankanum, meðal annars við skráningu bankans á markað í júní í fyrra. Síðast seldi Kaupþing 15% hlut í Arion banka í mars á þessu ári fyrir ríflega 20 milljarða króna.

Ríkissjóður fengið tugi milljarða

Ríkissjóður hefur átt mikið undir sölu bankans. Stjórnvöld og Kaupþing gerðu með sér afkomuskiptasamning um Arion banka árið 2015 í aðdraganda þess að Kaupþing var hleypt undan gjaldeyrishöftum.

Í samkomulaginu milli stjórnvalda og Kaupþings var kveðið á um að ríkið gæfi út 84 milljarða króna verðtryggt skuldabréf sem bar 5,5% vexti og Kaupþing greiddi upp með söluandvirði Arion banka. Yrði heildarsöluandvirði hlutar Kaupþings í bankanum yfir 100 milljarðar króna fengi ríkið einnig hlut af söluverðinu umfram þá upphæð. Ríkið fengi þriðjung söluverðs á bilinu 100 til 140 milljarðar króna, helming af söluverði á bilinu 140 til 160 milljarðar króna og ¾ af söluverði yfir 160 milljörðum króna. 

Afkomuskiptaákvæðið virkjaðist í fyrsta sinn í mars að því er Fréttablaðið greindi frá. Ríkið fékk þá rúmlega sex milljarða króna vegna sölunnar í mars. Ríkissjóður hefur átt forkaupsrétt á söluandvirði í Arion banka sem er undir 0,8 krónum á hlut en miðað við núverandi markaðsvirði bankans hefur söluandvirðið verið nær 0,7 krónum á hlut. Ríkið hefur hingað til ekki vilja nýta sér ákvæðið um forkaupsrétt.