Rafnar hafa samið um smíði á fyrsta 15 metra báti félagsins í Bandaríkjunum sem ber nafnið Rafnar 1500. Hver bátur af þeirri gerð kostar frá 300 til 350 milljónum króna eftir því hvernig hann er útbúinn samkvæmt tilkynningu frá félaginu.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi nýlega sömdu Rafnar í apríl við bandaríska félagið Fairlead um framleiðslu og sölu á Rafnar bátum í Bandaríkjunum. Fairlead heldur á sérleyfi til að framleiða Rafnar-bátana þar í landi í að minnsta kosti 5 ár.

Rafnar á Íslandi mun sjá um smíði skrokks og dekks á bátnum og lokafrágangur verður í smiðju Fairlead í Virginíu fylki. Bandarískir hönnuðir hafa verið fengnir til að vinna með Rafnar Maritime og Fairlead til þess að hanna allar viðbætur við bátinn unnar ásamt ísetningu véla og tækja.

„Það er gaman að sjá hvað Bandaríkjamenn taka vel við bátunum okkar. Ég er nýkominn frá Flórída og Virginíu þar sem ég hitti mikið af viðskiptavinum Fairlead. Samdóma álit þeirra var að Rafnar sé meðal þess áhugaverðasta sem bátaheimurinn hefur séð í langan tíma,“ segir Ólafur Hand, framkvæmdastjóri sölu og markaðsmála Rafnars, í tilkynningu.

„Það sem er ánægjulegt fyrir okkur í Rafnar er að auk ánægðra viðskiptavina og samstarfsaðila á Íslandi, Grikklandi, Tyrklandi, Bretlandi, Spáni, Karabíska hafinu og fleiri skuli nú bætast við framleiðendur og notendur í Bandaríkjunum. Allt styrkir þetta okkur í trúnni á að við séum með einstaka hönnun í höndunum,“ bætir Ólafur við.

„Á næstu mánuðum vonumst við til þess að framleiðsla Rafnar verði komin á fullt vestanhafs og að við verðum komin vel af stað við að kynna bátanna okkar í einum stærsta bátamarkaði í heimi sem er í Bandaríkjunum," segir hann enn fremur.

Í dag framleiðir Rafnar þrjár gerðir báta 8,5 metra, 11 metra og nú 15 metra. Framleiðsla bátanna fer fram á Íslandi, Grikklandi, Bretlandi, Tyrklandi, Hollandi og í Bandaríkjunum.