Þetta hefur gengið mjög vel, við seljum BuddyPhones heyrnartólin okkar í 64 löndum í dag, en Bandaríkin eru stærsti markaðurinn okkar. Þar höfum við nú verið í rúmlega eitt ár að selja inn í allar verslanir Target, sem er akkúrat hárrétti markaðurinn fyrir okkur, enda þar sem mömmurnar versla,“ segir Pétur Hannes Ólafsson, framkvæmdastjóri og annar stofnenda Onanoff, en heyrnartólin sem félagið framleiðir eru sérstaklega gerð til að valda ekki heyrnarskaða með hámarksstillingu.

„Um 15% af veltunni okkar eru í gegnum netsölu, en á Amazon er sérstaklega mælt með heyrnartólunum frá okkur með Kindle rafbókunum. Við erum einnig komin inn í marga stærstu skólana í Hong Kong, Kína og Japan og erum byrjaðir að selja inn í bandaríska skóla. Veltan hefur margfaldast hjá okkur á síðustu tveimur árum og í ár stefnir í að hún vaxi um 50% og verði um 600 milljónir króna í ár. Við erum að selja um 600 þúsund heyrnartól í ár, og svo erum við að klára samninga sem koma okkur enn víðar að á næsta ári.“

Í dag starfa um 20 starfsmenn hjá Onanoff, í Hong Kong, Bandaríkjunum og Íslandi, en eftir fjögurra ára frumkvöðlastarf stefnir félagið að því að skila hagnaði í ár í fyrsta sinn. „Árangurinn byggir á að við erum með sérhæfða vöru úr endingargóðu efni og hugsað er út í öll smáatriði. Kaplarnir, sem hægt er að nota þegar þarf að hlaða heyrnartólin og tengja mörg saman, eru úr þannig efni að þeir flækjast ekki, en sumar gerðirnar eru þráðlausar,“ segir Pétur.

„Síðan erum við að koma með fyrstu vöruna okkar sem er fyrir fullorðna líka, StudyPhones, þar sem við leggjum áherslu á að hljóðgæðin séu góð á talmálstíðninni, á milli 1.000 og 3.000 rið, sem dregur úr þreytu við hlustun. Jafnframt má stilla sum BuddyPhones barnaheyrnartólin þannig. Við höfum unnið til fjölmargra verðlauna sem hefur hjálpað til við að festa okkur í sessi sem leiðandi vörumerki í kennslu og fyrir börn.“

Hinn stofnandi Onanoff, Bjarki Garðarsson, sem sinnir meira fjármálahliðinni, segir Pétur vera hugmyndasmiðinn í fyrirtækinu. „Hugmyndin kom þannig til að konan hans Bjarka var á flugvellinum í París með börnin þeirra og var að leita að heyrnartólum fyrir þau fyrir flugferðina. Hún hringdi í mig, enda þekktur sem tæknigúrúið í vinahópum, frekar pirruð yfir úrvalinu og spurði hvaða vörumerkjum ég mælti með,“ segir Pétur.

„Í kjölfarið fór ég að horfa á þennan markað og sá að hann var yfirfullur af annars vegar stórum vörumerkjum sem gerðu ekkert sérstakt fyrir þarfir barnanna og svo heyrnartól framleidd ódýr á kostnað gæðanna, sem flokka má meira sem leikföng. Það vantaði hins vegar góð tæki fyrir börn sem tryggt væri að yllu ekki heyrnarskaða hjá börnum sem eru að vaxa.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Umfjöllun um kaup Kviku á GAMMA.
  • Úttekt á stöðu olíumarkaðarins.
  • Viðtal við Stefán Sigurðsson, forstjóra Sýnar.
  • Umfjöllun um greiningu Samtaka iðnaðarins.
  • Verður hluthafafundi Icelandair frestað?
  • Umfjöllun um áhugaverða viðburði í viðskiptalífinu.
  • Óðinn skrifar um sæstrenginn og orkupakkann.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað.
  • Týr fjallar um „stóra hjúkkumálið".