*

laugardagur, 24. júlí 2021
Innlent 27. febrúar 2021 08:22

Selja hinu opinbera ljós án útboðs

Síðastliðinn áratug keyptu ríki og borg búnað, tækni og þjónustu vegna umferðarljósastýringar fyrir hundruð milljóna án útboðs

Jóhann Óli Eiðsson
Ekki eru til formlegir samningar milli borgarinnar og Vegagerðarinnar um ljósastýringu á höfuðborgarsvæðinu.
Eyþór Árnason

Það hefur verið allur gangur á því hvort Reykjavíkurborg og Vegagerðin hafa boðið út verkefni tengd umferðarljósastýringu á höfuðborgarsvæðinu eður ei. Eitt fyrirtæki, það er Smith og Norland hf., hefur á undanförnum áratug fengið yfir 580 milljónir króna, virðisaukaskattur meðtalinn, frá aðilunum tveimur. Í einhverjum tilfellum virðist sem útboðsskyld verkefni hafi ekki verið boðin út.

Umferðarstýring á höfuðborgarsvæðinu er samvinnuverkefni Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar. Í afar einfölduðu máli má segja að fyrirkomulagið sé á þann veg að borgin sjái að stórum hluta um fyrirkomulag stýringarinnar og að Vegagerðin taki síðan þátt í kostnaði.

Alls eru um 230 umferðarljós á höfuðborgarsvæðinu. Í skýrslu, sem sænska ráðgjafafyrirtækið Sweco vann fyrir aðila í fyrra, segir meðal annars að engir formlegir samningar séu í gildi varðandi ljósastýringu á höfuðborgarsvæðinu. Borgin og Vegagerðin eigi kerfið í sameiningu en borgin sjái um það og rukki Vegagerðina síðan fyrir sinn hlut. Rétt er að geta þess að skýrsluhöfundar ræddu aðeins við starfsmenn borgarinnar og Vegagerðarinnar við gerð hluta hennar er að borginni sneri.

Búnaður rétt fyrir samgöngusáttmála

Árið 2003 var samstarfsnefnd aðilanna komið á fót og árið 2006 var keypt ljósastýringartölva frá Siemens. Með í kaupum fylgdi ljósastýringatækni að nafni TASS. Heildarsamningsupphæð var, samkvæmt fréttaflutningi frá þeim tíma, 875 þúsund evrur eða 65 milljónir króna á gengi þess dags. Stefnt var að því að umrætt kerfi næði til allra umferðarljósa á svæðinu árið 2010 en líkt og alkunna er dundi á efnahagslegt hamfaraveður og var verkefnið meðal þeirra sem sett voru á ís.

Árið 2014 komst einhver hreyfing á það á nýjan leik og frá þeim tíma hefur smám saman verið bætt við það. Búnaður og þjónusta hefur verið keypt af þjónustuaðila Siemens, Smith og Norland, og það heyrt til undantekninga að tilboða hafi verið leitað annars staðar frá.

Það vakti athygli fyrir jól þegar kærunefnd útboðsmála sló á fingurna á aðilunum tveimur vegna kaupa á nýrri miðlægri stjórntölvu af Smith og Norland. Borgin fór fram á það við innkauparáð sitt í maí 2019 að fá heimild til að kaupa slíka tölvu og þjónustu henni tengdri. Áætlað kaupverð var 60 milljónir króna sem skiptast átti til helminga milli aðila. Sú heimild fékkst og var samkomulag undirritað þá um sumarið. Endanlegur kostnaður varð tæplega 53 milljónir króna.

Áhugavert er að geta þess að í september sama ár var sáttmáli um fjölbreyttar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu undirritaður en þar eru 7,2 milljarðar króna eyrnamerktir „bættri umferðarstýringu og sértækum öryggisaðgerðum“ auk innleiðingar stafrænnar umferðarstýringar á höfuðborgarsvæðinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.