Írska ríkisstjórnin hyggst selja 25% hlut í írska ríkisbankanum Allied Irish Banks en þetta kemur fram í frétt BBC . Ríkið yfirtók bankann í desember árið 2010 í björgunaraðgerð sem kostaði írska skattgreiðendur 21 milljarð evra. Ríkið á nú 99,8% hlut í bankanum.

Michael Noonan fjármálaráðherra Írlands segir að framfarir hafi verið í rekstri bankans að undanförnu og núverandi markaðsaðstæður gefi ástæðu fyrir því að rétt sé að hefja einkavæðingu bankans.

Bankinn var í fyrra metinn á 11,3 milljarða evra og er því talið að 25% hluturinn sé að minnsta kosti 3 milljarða virði.

AIB er stærsti lánveitandi í írska hagkerfinu og nema útlán hans 36% af heildarlánveitingum.

Fyrir utan AIB á írska ríkið einnig 75% eignarhlut í bankanum Permanent TSB og 14% eignarhlut í Bank of Ireland.