Domino´s í Bretlandi, sem er stærsta pizzakeðjan í landinu, hefur keypt minnihluta í rekstri Domino´s á Íslandi. Íslenska fyrirtækið Pizza-Pizza ehf. sem er sérleyfishafi fyrirtækisins hér á landi er jafnframt með sérleyfi til rekstrar Domino´s staða í Noregi, Svíþjóð og Færeyjum.

Pizza á hvert heimili daglega í 2 ár

Fyrirtækið hefur staðið í uppbyggingu Domino´s í Noregi og hyggst á næstunni opna fyrstu Domino´s staðina í Svíþjóð. Með kaupunum innleysa íslenskir eigendur fyrirtækisins hluta af þeirri fjárfestingu ásamt því að fá til liðs við sig sterkt fyrirtæki með dýrmæta reynslu af netauglýsingum og markaðsetningu.

Telja eigendur að sú reynsla muni gagnast vel við að auka markaðshlutdeild Domino´s í Noregi og Svíþjóð. Breska fyrirtækið, Domino´s Pizza Group, mun eignast 45-49% hlut í íslenska félaginu, en það er gríðarstórt og skráð í bresku kauphöllina.

Verðmæti breska fyrirtækis er um 315 milljarðar króna en fyrir þá upphæð mætti panta stóra matseðilspizzu með brauðstöngum, hvítlauksolíu og gosi inn á sérhvert heimili á Íslandi daglega í tvö ár, segir í fréttatilkynningu um kaupin.