Félagið Frostaskjól ehf. seldi í dag hluti í Heimavöllum fyrir um 560 milljónir króna á genginu 1,1 króna á hlut. Salan er nokkuð undir því verði sem var í síðustu viðskiptum með bréf í Heimavöllum við lokun markaða á föstudaginn. Þá nam verðið 1,2 krónum á hlut.

Frostaskjól er skráð í eigu félagsins Akkelis ehf. sem er til helminga í eigu félaganna Reir ehf og Aztiq Fjárfestingar ehf. Reir er í eigu viðskiptafélaganna Hilmars Þórs Kristinssonar og Hollendingsins Bernhard Jakob Strickler. Aztiq fjárfestingar eru skráð í eigu Aztiq Investment Advisory AB í Svíþjóð. Félagið tengist stjórnendum Alvogen, meðal annars Róberti Wessman og Árna Harðarsyni.

Tilkynning vegna sölunnar var send inn til Kauphallar Íslands en ekki kemur fram hver kaupandinn sé. Samkvæmt upplýsingum á vef Heimavalla átti Frostaskjól 1,5% hlut í Heimavöllum á miðvikudaginn síðastliðinn.

Kauphöll Íslands hafnaði í sumar afskráningu Heimavalla úr Kauphöllinni. Samhliða afskráningunni bauðst hluthöfum að selja sinn hlut á genginu 1,3 krónur á hlut.