Framtakssjóður Íslands hefur selt 7% hlut í Icelandair Group eða sem nemur 350 milljón hlutum, samkvæmt flöggun til Kauphallarinnar. Hlutafé sjóðsins fer við það úr 19,01% í 12%. Ef miðað er við gengi hlutabréfa Icelandair Group í dag má áætla að söluandvirðið nemi tæpum 2,7 milljörðum króna.

Með sölu Framtakssjóðsins á hlutnum í Icelandair Group er Lífeyrissjóður verslunarmanna orðinn stærsti hluthafi félagsins með 14,36% hlut.

Framtakssjóðurinn keypti í júní 2010 30% hlut í Icelandair Group fyrir þrjá milljarða króna á genginu 2,5 krónur á hlut. Gengi hlutabréfa félagsins stendur nú í 7,65 krónum á hlut. Það hækkaði um 1,59% í fyrstu viðskiptum í Kauphöllinni.