Eyrir Invest hf. hefur selt 10 milljón hluti í Marel hf. Viðskiptin auka fjárhagslegan styrk Eyris sem og  sveigjanleika í rekstri. Hlutirnir voru seldir á verðinu 348 krónur á hlut. Gerir það 3.480 milljón krónur í söluandvirði bréfanna. Eftir sem áður verður Eyrir stærsti hluthafi Marel með 25,9% af útgefnu hlutafé. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu:

„Eyrir Invest er langtímafjárfestir og hefur verið kjölfestufjárfestir í Marel síðan 2005. Marel starfar samkvæmt langtímastefnu sinni og rekstur félagsins gengur vel.Eyrir hefur mikla trú á möguleikum Marel til áframhaldandi vaxtar sem og getu félagsins til að skila góðri afkomu. Eyrir hyggst áfram vera kjölfestufjárfestir í Marel.

Fjárhagsstaða Eyris er sterk. Eyrir Invest er langtímafjárfestir með þá stefnu að styðja við alþjóðleg iðnfyrirtæki og sprotafyrirtæki í vexti. Eyrir keypti nýlega ráðandi hluti í Efni ehf. en félögin munu vinna saman að því að byggja upp nýjar markaðs- og söluleiðir fyrir íslensk fyrirtæki sem eru að framleiða hágæða vörur og þjónustu.

Saman sjá þau fyrir sér að nýta nýjar aðferðir til að byggja upp söluleiðir gegnum netsölu og markaðssetningu í gegnum samfélagsmiðla. Þá hefur Eyrir Invest nýverið keypt upp allan B-flokk eigin hlutabréfa. Fyrir aðalfundi félagsins, sem haldinn verður 12. maí, liggur fyrir tillaga stjórnar um frekari kaup á eigin hlutum fyrir rúmlega 1.700 milljónir króna.“