Danska brugghúsið Carlsberg skilaði hagnaði upp á 62 milljónir danskra króna, jafnvirði rétt tæpra 1,3 milljarða íslenskra króna, á fyrstu þremur mánuðum ársins. Þetta er talsvert betri afkoma en á sama tíma í fyrra þegar Danirnir töpuðu 76 milljónum danskra króna.

Breska ríkisútvarpið (BBC) bendir á að bjórunnendur í Asíu hafi híft afkomu Carlsberg upp á fyrsta ársfjórðungi á þessu ári og teygað sopann í meiri mæli en áður sem hafi skilað sér í því að tekjur þar jukust um 13% á milli ára. Tekjur Carlsberg í Asíu nema nú um 20% af heildartekjum fyrirtækisins, að sögn BBC. Þetta er í samræmi við væntingar en Carlsberg hefur unnið að því að bæta stöðu sína í Asíu síðustu árin og vega með því móti upp á móti sölusamdrætti á öðrum mörkuðum, s.s. á evrusvæðinu.

BBC hefur eftir Jörgen Buhl Rasmussen, forstjóra Carlsberg, að árið líti talsvert betur út en í fyrra.