Icelandair hefur gengið frá samningum við Sky Aero Mana­gement (SKY Leasing) um sölu á tveimur Boeing 737 MAX 9 flugvélum sem verða svo endurleigðar flugfélaginu til 12 ára. Félagið hefur sent tilkynningu í Kauphöllina þess efnis.

Vélarnar verða afhentar á öðrum ársfjórðungi næsta árs en Icelandair á alls von á þremur nýjum 737 MAX flugvélum á fyrri helmingi ársins. Þá mun félagið fá þrjár vélar til viðbótar næsta vetur 2021/2022.

Félagið hafði áður samið við BOC Aviati­on um sölu og end­ur­leigu á einni Boeing 737 MAX 8-vél ásamt fjár­mögn­un til vara á 737 MAX vélunum tveim­ur, sem nú er ljóst að félagið mun ekki nýta. Áfram er þó til staðar fjármögnun til varar gegn­um BOC Aviati­on, fyrir þær þrjár flugvélar sem Icelandair fær afhent næsta vetur.

BOC Aviation er að meirihluta í eigu kínverska ríkisbankans Bank of China en er skráð í kauphöllina í Hong Kong. Sky Aero Mana­gement er írskt flugvélaleigufélag sem er í eigu flugvélaleigufélagsins Goshawk Aviation, sem skráð er á markað í Hong Kong, og er að mestu í eigu Cheng fjölskyldunnar, einnar auðugustu fjölskyldu Hong Kong , í gegnum félögin NWS Holdings Limited og Chow Tai Fook Enterprises Limited.

MAX vélarnar hafa verið kyrrsettar frá því í mars 2019 í Evrópu en búist er við að kyrrsetningunni verði aflétt í næsta mánuði. Kyrrsetningu vélanna hefur þegar verið aflétt í Bandaríkjunum. Icelandair stefnir á að nýta flugvélarnar í flugáætlun næsta sumars.