Ýmiss konar drykkir, sem innihalda fisklýsi eða omega-3 fitusýrur unnar úr lýsi, eru nú að ryðja sér til rúms erlendis. Flestar þessar afurðir eiga það sammerkt að ekkert lýsisbragð á að vera af þeim.

Nýjasta dæmið um þetta eru appelsínusafi og mjólkurdrykkur frá norska fyrirtækinu Pharmologia. Búið er að bæta omega-3 fjölómettuðum fitusýrum í drykkina og á innihaldið að nægja til þess að fullnægja dagsþörf líkamans af slíkum sýrum. Nýju drykkirnir eru seldir undir vörumerkinu Smartfish og á kyst.no kemur fram að fiskbragðið hafi verið hreinsað úr lýsinu eða omega-3 olíunni með aðferð sem njóti einkaleyfisverndar.

Hjónin Janne og Henrik Mathisen eiga og reka Pharmalogia. Fyrirtækið var stofnað 2001 en fyrstu Smartfish afurðirnar komu á markað á árinu 2003.

(www.skip.is)