Auk þess að selja 12,1% hlut í France Telecom áætlar franska ríkið að selja hlut í orkufyrirtækinu Electricite de France á næsta ári, en það er stærsta orkufyrirtæki í heimi. Ítalska ríkið hefur einnig tilkynnt að það hyggist selja hlut sem nemur allt að 7,8 mö.EUR (684 ma.kr.) í orkufyrirtækinu Enel um miðjan nóvember. Þá hefur þýska ríkið sagt að það ætli að selja hlut í fjarskiptafyrirtækinu Deutsche Telekom eins og bent er á í Vegvísi Landsbankans í dag.

Ástæður þess að stóru evrulöndin eru að selja eignarhluti í ríkisfyrirtækjum eru m.a. þær að þau eru að reyna að grynnka á skuldum sínum og þar með lækka vaxtagreiðslur. Lög Evrópusambandsins kveða nefnilega á um að skuldir ríkisins megi ekki vera meiri en sem nemur 60% af landsframleiðslu og hafa stærstu evrulöndin átt í erfiðleikum með að ná þessu marki. Þessar vísbendingar gefa þó til kynna að stóru evrulöndin muni leggja sig harðar fram í því að ná settum markmiðum Evrópusambandsins.

Byggt á Vegvísi Landsbankans.