Íslenska matvælasprotafyrirtækið Via Health selur nú vörur sínar undir vörumerkinu Good Good í Suður-Afríku. Vörunum verður landað í Durban, eftir um mánuð og verða þær seldar í Wellness Warehouse ásamt fleiri verslunum þar í landi.

Via Health kynnti sykurlausa vörumerkið Good Good við góðar undirtektir á Anuga vörusýningunni í  Köln, í Þýskalandi haustið 2015 og hefur síðan verið í mikilli sókn á erlendum mörkuðum að því er segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Sykurlausar sultur og súkkulaðismyrja

Good Good vörur Via Health fást í um 500 hundruð verslunum, m.a. Íslandi, Írlandi (Musgraves), Portúgal (El Corte Ingles og Jumbo), Finnlandi (Ruohonjuuri), Sviss, Bretlandi (Harrods og Holland & Barret) og Hollandi.

Fyrirtækið er í miklum vexti og stefnir á frekari sölu í Evrópu og Bandaríkjunum. Via Health sérhæfir sig í náttúrulegri sætu í stað sykurs og býður uppá heilsusamlega stevíudropa, stevíusykur og stevíutöflur.

Á næstunni  mun fyrirtækið kynna nýjar vörur, þ.m.t. sykurlausar sultur, sykurlaust síróp og sykurlausa súkkulaðismyrju.