*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 25. september 2021 11:14

Seljendur áfram með yfirhöndina

Fasteignaverð mun hækka umfram hækkun launa á þessu ári og því næsta samkvæmt nýrri hagspá Íslandsbanka.

Ingvar Haraldsson
Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur í greiningu hjá Íslandsbanka.
Haraldur Guðjónsson

Fasteignaverð mun hækka umfram hækkun launa á þessu ári og því næsta samkvæmt nýrri hagspá Íslandsbanka. Sögulega lágir stýrivextir, kaupmáttarvöxtur og sterk fjárhagsstaða heimila hafa ýtt undir eftirspurn eftir fasteignum á sama tíma og íbúðafjárfesting hefur dregist saman. Seljendamarkaðurinn ríkir því enn þó að Íslandsbanki segir vænta megi þess að senn taki að hægja á hækkun fasteignaverðs.

„Við teljum forsendur fyrir því að íbúðaverð haldi áfram að hækka á næstu misserin þó að hægja muni á hækkunum samhliða hækkun stýrivaxta og auknu framboði á íbúðum,“ segir Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur í greiningu hjá Íslandsbanka. Íslandsbanki spáir um 11,9% hækkun íbúðaverðs að nafnvirði á landinu á þessu ári, 6,9% árið 2022 og 3,4% árið 2023. Á sama tíma er búist við að laun hækki um 8,2% á árinu að nafnvirði í ár en 4,4% bæði árin 2022 og 2023. „Seðlabankastjóri hefur sagt að peningastefnunefnd muni ekki hika við að hækka vexti til að kæla fasteignamarkaðinn ef það stefnir í að hann sé að fara úr böndunum,“ segir Bergþóra.

Seðlabankinn hefur þegar hækkað stýrivexti um 0,5 prósentustig frá því í vor, úr 0,75% í 1,25%. Auk þess lækkaði Seðlabankinn hámarksveðsetningarhlutfall til fasteignakaupa úr 85% í 80% í sumar til að hindra mögulega bólu á markaðnum. Þó er 90% áfram leyfilegt veðsetningarhlutfall hjá fyrstu kaupendum.

Mikil breyting hefur orðið á skömmum tíma á lánamarkaði þar sem hlutur óverðtryggðra lána nálgast hratt helming allra fasteignalána. Auk þess hefur verið aukin ásókn í lán á breytilegum vöxtum. Það ætti að hafa í för með sér að stýrivaxtahækkanir Seðlabankans hafi meiri og hraðari áhrif á húsnæðismarkaðinn en ella. Íslandsbanki spáir því að stýrivextir hækki í 1,5% fyrir lok ársins og í 2,5% um mitt næsta ár.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér